Ég gef kost á mér til að gegna áfram embætti formanns Félags grunnskólakennara, en ég var kjörin
formaður árið 2018. Í hönd fara tímar þar sem mikilvægt er að standa vörð um hagsmunamál
kennara auk þess að fylgja eftir þeim breytingum og framþróun sem felst í nýjum kjarasamningi.
Ég hef í viðræðum við sveitarfélögin lagt áherslu á að bæta starfskjör og starfsskilyrði kennara og
náms- og starfsráðgjafa, að auka sveigjanleika í samræmi við nútímaleg starfsskilyrði og kröfur í
starfi sérfræðinga.
Mér er mikið í mun að félagið okkar verði lýðræðislegra og virkara og hvet því allt félagsfólk til að
taka þátt í formannskjöri. Ég vil vinna með ykkur að breytingu á Félagi grunnskólakennara í átt til
betri samvinnu allra og meiri áhrifa félagsmanna.
Kosningarnar skipta máli. Það er ekki léttvægt hver ber ábyrgð á því að semja um kaup og kjör
grunnskólakennara á næstu árum. Aðilinn sem við treystum til þess þarf að hafa góða þekkingu á
öllum samningum kennara ásamt því að hafa skilning á því hvernig hinar ýmsu greinar hans
tengjast innbyrðis því lítil breyting getur haft keðjuverkandi áhrif. Fyrst og fremst þarf sá aðili þó
að hafa bein í nefinu og standa fast á því að kennarar muni aldrei nokkurn tímann selja áunni
réttindi frá sér.
Ég hef verið formaður FG í fjögur ár og er gríðarlega stolt af þeim árangri sem ég og sterk og
samhent stjórn félagsins höfum náð ásamt ótrúlega þrautseigri samninganefnd þess.